Ferill 659. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1119  —  659. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald (frestun gjalddaga).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. skal gjalddagi helmings þeirrar greiðslu sem var á gjalddaga í mars 2020 vegna skila á staðgreiðslu vera mánuði síðar en kveðið er á um í 3. mgr. 20. gr. og eindagi 14 dögum eftir það. Ákvæðið á ekki við um staðgreiðslu samkvæmt lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. skal gjalddagi helmings þeirrar greiðslu sem var á gjalddaga í mars 2020 vegna skila á staðgreiðslu vera mánuði síðar en kveðið er á um í 1. mgr. 10. gr. og eindagi 14 dögum eftir það.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í því eru lagðar til breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987 og lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar má rekja til samþykktar ríkisstjórnarinnar hinn 10. mars 2020 um að beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19. Aðgerðirnar miða að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið. Ein aðgerðanna gerir ráð fyrir því að fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að gjalddaga helmings þeirrar staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds, samkvæmt lögum nr. 45/1987 og lögum nr. 113/1990, sem var á gjalddaga í mars 2020, verði frestað um mánuð og eindagi verði 14 dögum eftir það. Eindagi staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds ætti að öllu óbreyttu, vegna þess helmings sem frestað er, að vera 16. mars 2020 en verður 15. apríl 2020 verði frumvarpið að lögum. Um tímabundna og almenna einskiptisaðgerð er að ræða og því er lagt til að við áðurnefnd lög bætist ný ákvæði til bráðabirgða. Á þeim tíma sem veittur er greiðslufrestur samkvæmt frumvarpinu verður unnið að útfærslu nýrrar leiðar sem tryggir fyrirtækjum sem lent hafa í greiðsluvanda úrræði til greiðsludreifingar. Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eiga ekki við um staðgreiðslu samkvæmt lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.
    Með frumvarpinu er lengdur sá tími sem má líða án þess að vanskilaviðurlögum sé beitt á helming þeirrar fjárhæðar sem var á gjalddaga í mars 2020. Sé staðgreiðsla opinberra gjalda ekki greidd á réttum tíma ber að greiða álag skv. 28. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Frumvarpið felur í sér að álagi skv. 28. gr. laganna verði ekki beitt fyrr en 16. apríl vegna þeirra staðgreiðsluskila sem frestað er. Jafnframt felur frumvarpið í sér að vangreitt tryggingagjald sem frestað er beri ekki dráttarvexti fyrr en á gjalddaga í apríl 2020.
    Gert er ráð fyrir því að verði frumvarpið að lögum verði skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu og tryggingagjalds óbreytt og því gerð grein fyrir allri staðgreiðslunni á skilagreinum þótt greiðslunni verði skipt eins og lagt er til í frumvarpinu og þannig skilað helmingi þeirrar staðgreiðslu sem ella hefði verið skilaskyld.
    Markviss og traust viðbrögð skipta sköpum við aðstæður eins og nú eru uppi vegna COVID-19 faraldursins. Þegar má merkja áhrif hans í efnahagslífinu en með viðbrögðum eins og hér eru lögð til má draga verulega úr þeim áhrifum og með því verja íslenskt efnahagslíf.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Þess var gætt við samningu frumvarpsins að efni þess og framsetning samrýmdust ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

5. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Skattinn. Frumvarpið er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir 150. löggjafarþing 2019-2020. Það hefur hvorki farið í innra né ytra samráð í samráðsgátt stjórnvalda þar sem bregðast þurfti skjótt við þeim aðstæðum sem hafa skapast og því vannst ekki tími til þess.

6. Mat á áhrifum.
    Gert er ráð fyrir því að þær lagabreytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu hafi í för með sér seinkun á tekjum ríkissjóðs að fjárhæð 22 milljörðum króna vegna mánaðar frestunar á gjalddaga helmings fjárhæðar staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðslu tryggingagjalds í mars 2020.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. og 2. gr.

    Með ákvæðunum er lagt til að bætt verði við lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og lög um tryggingagjald, nr. 113/1990, ákvæðum til bráðabirgða.
    Ákvæðin fela það í sér að gjalddaga helmings þeirrar staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds sem var á gjalddaga í mars 2020, verði frestað um mánuð og eindagi verði 14 dögum eftir það. Eindagi staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds ætti að öllu óbreyttu, vegna þess helmings sem frestað er, að vera 16. mars 2020 en verður 15. apríl 2020 verði frumvarpið að lögum. Um tímabundna og almenna einskiptisaðgerð er að ræða og á hún ekki við um staðgreiðslu samkvæmt lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.
    Með ákvæðunum er lengdur sá tími sem má líða án þess að vanskilaviðurlögum sé beitt á helming þeirrar fjárhæðar sem var á gjalddaga í mars 2020. Sé staðgreiðsla opinberra gjalda ekki greidd á réttum tíma ber að greiða álag skv. 28. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Ákvæðin fela í sér að álagi skv. 28. gr. laganna verði ekki beitt fyrr en 16. apríl vegna þeirra staðgreiðsluskila sem frestað er. Jafnframt fela ákvæðin í sér að vangreitt tryggingagjald sem frestað er beri ekki dráttarvexti fyrr en á gjalddaga í apríl 2020.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.